Íslenski boltinn

„Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur“

Jón Már Ferro skrifar
Matthías fagnar ásamt liðsfélögum sínum.
Matthías fagnar ásamt liðsfélögum sínum. Vísir/Diego

Matthías Vilhjálmsson, sóknarmaður FH, skoraði þrennu í 4-2 sigri þeirra á Leikni Reykjavík í Kaplakrika í dag. Þetta var fyrsta þrenna hans á Íslandi í efstu deild. Ísfirðingurinn hefur ekki staðið undir væntingum í sumar. Hann sýndi sitt rétta andlit í þessu leik og var léttur í viðtali eftir leik.

„Ég held það, ég held að þetta sé fyrsta þrennan. Ég skuldaði og það kom loksins,“ sagði Matthías eftir lífsnauðsynlegan sigur FH en liðið hafði sætaskipti við Leikni með sigri dagsins. Þegar þrjár umferðir eru eftir er FH í 10. sæti með 22 stig en Leiknir R. sæti neðar með 20 stig.

FH-ingar komu mjög ákveðnir til leiks og settu gestina í mikil vandræði. Það skilaði sér í tveimur mörkum snemma leiks.

„Mér fannst við byrja mjög vel, tókum fljótt yfirhöndina. Leiknismenn eru mjög seigir. Þeir koma alltaf með smá áhlaup á liðin. Þeir gerðu það fyrr í sumar á móti okkur og á móti fleiri liðum. Þeir gefast aldrei upp. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur til að geta haft þetta í okkar eigin höndum það sem eftir er. Þetta eru samt bara þrjú stig.“

Matthías var mjög ánægður með sigurinn en var meðvitaður um stöðu liðsins.

„Fyrst og fremst að frammistaðan var eiginlega mjög góð í dag líka. Síðan eigum við tvo útileiki eftir á móti Keflavík og Fram. Sem eru mjög erfiðir leikir. Áður en við fáum Skagann í heimsókn í loka umferðinni. Þannig við fáum vonandi sjálfstraust út úr þessum leik. Þetta eru eiginlega bara þrjú stig því Leiknir gæti strax unnið næsta leik og ef við ætlum ekki að standa okkur í næsta leik þá gætum við verið komnir í sama pakka aftur.“

Eins og áður hefur komið fram hefur FH ekki gengið vel á útivelli í sumar en eiga tvo útileiki í röð núna. Matthías vonast til að heimavallarárangurinn færist á útivöll.

„Við höfum verið mjög góðir á heimavelli undanfarið og þegar við spilum hérna í Krikanum þá líður okkur mjög vel. Það er eitthvað sem við þurfum að fá í útivallarformi. Við spiluðum góðan sóknarbolta. Ég held þetta hafi verið góður leikur fyrir áhorfendur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×