Viðskipti innlent

Einungis þrjú fyrirtæki hækkuðu í virði í september

Bjarki Sigurðsson skrifar
Síminn, Ölgerðin og Hagar eru einu fyrirtækin sem hækkuðu í virði í september.
Síminn, Ölgerðin og Hagar eru einu fyrirtækin sem hækkuðu í virði í september. Vísir/Vilhelm

Virði nítján fyrirtækja á aðallista Kauphallarinnar lækkaði í september. Vísitala Kauphallarinnar í heild sinni lækkaði um 8,3 prósent sem er það næst mesta yfir heilan mánuð á árinu. Mesta lækkunin var hjá Eimskip.

Í Hagsjá Landsbankans er rýnt í virði félaga í Kauphöllinni en einungis þrjú fyrirtæki hækkuðu í virði í september. Síminn hækkaði um 7,6 prósent, Ölgerðin um 7,3 prósent og Hagar um 4,4 prósent.

Mesta lækkunin var hjá Eimskip en virði félagsins lækkaði um 17,3 prósent í september. Næst á eftir komu Iceland Seafood með 13,4 prósenta lækkun og Origo með 12,3 prósenta lækkun.

Þrátt fyrir lækkanir í september er meirihluti félaga enn með jákvæða ávöxtun sé horft til síðustu tólf mánaða. Mesta ávöxtunin er hjá Sýn, 38,4 prósent, næst hjá Brim, 26,1 prósent og hjá Skel fjárfestingarfélagi, 23,7 prósent.

Mesta lækkunin síðustu tólf mánuði er hjá Icelandic Seafood en ávöxtun félagsins er neikvæð um 54,7 prósent. Marel er þar skammt á eftir með rúmlega fimmtíu prósent lækkun.

Erlendir hlutabréfamarkaðir halda áfram að lækka

Hlutabréfamarkaðir í helstu viðskiptalöndum Íslands héldu áfram að lækka í september eftir verðlækkun í ágúst. Lækkunin var að meðaltali átta prósent.

Lækkunin er mest í Þýskalandi eða 34,3 prósent. Þar á eftir koma Svíþjóð með 31,9 prósent lækkun og Austurríki með 30,3 prósent lækkun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×