Innlent

Öllu starfsfólki sagt upp

Ólafur Björn Sverrisson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Menntamálastofnun verður lögð niður og öllu starfsfólki þar sagt upp í viðamiklum breytingum sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur boðað. Samhæfing og ný verkfæri í skólakerfi eru meðal annars ástæður breytingarinnar.

Hann hyggst koma á fót nýrri stofnun sem skuli tryggja gæði menntunar og aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að samþættri, heildstæðri skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Sjá einnig: Þór­dís Jóna nýr for­stjóri Mennta­mála­stofnunar sem verður lögð niður

„Ég er sannfærður um að þarna séum við að stíga gífurlega mikilvægt skref til þess að teygja okkur inn í alla skóla, allar skólastofur, samhæfa þjónustu við nemendur og starfsfólk skóla og kennara. Það er þannig að við höfum ekki mörg verkfæri eða tæki til að aðstoða og þjónusta skólakerfið eins og er kallað eftir,“ segir Ásmundur Einar í samtali við fréttastofu. 

Hann gerir ráð fyrir að öllu starfsfólki verði sagt upp enda sé hlutverki stofnunarinnar gjörbreytt.

„Þessar breytingar þurfa bæði aðkomu sveitarfélaga og fleiri aðila. Þannig verkefni munu bæði flytjast frá stofnuninni og ný verða til. Þess vegna leggjum við til að leggja niður stofnunina í núverandi mynd og stofnuð ný. Svo verður það verkefnið framundan að forma það með hvaða hætti þessum málum verður háttað.“

Á fundi sem Ásmundur Einar átti með starfsfólki Menntamálastofnunar, hvatti hann starfsfólk til að taka þátt í vinnunni framundan. 

„Við viljum að sjálfsögðu hafa sjónarmið fólksins sem vinnur þar við borðið,“ segir Ásmundur Einar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×