Skoðun

Kvíði, þung­lyndi og mamma þín

Gunnar Dan Wiium skrifar

Kvíða og þunglyndissjúklingur í bata, er ég þá hættur að ganga í gegn um kvíða og þunglyndi? Nei, alls ekki, en missa þessi öfl mátt sinn og vald yfir mér? Klárlega. Hvað er kvíðinn að segja mér? Hann er vegvísir fyrir mér, ég er ekki kvíðinn, ég upplifi kvíða. Kvíðinn er þessi ónotatilfinning sem kemur fram í öllum skrokknum en á upptök sín í maganum. Hann sýnir mér brotin og markarleysið, ég hef brotið á öðrum eða aðrir hafa brotið á mér. Þar er uppspretta kvíðans, áfallatengdur segir hann mér hvar kuskið liggur í hornum vitundar. Kvíðinn er nátengdur þunglyndi því streituhormónar nærast á boðefnum, drena mig af boðefnum. Þunglyndi er í botn og grunn boðefnaskortur svo allt hangir saman. Hvers er ætlast til af mér, ég er spurður, hvernig ertu?, ég svara “upp á tíu”. Fólk segir hvernig má það vera, ertu aldrei kvíðin og þunglyndur?, ég svara, nei, ég er aldrei en upplifi oft, mjög oft og meira að segja þar er ég upp á tíu. Lífið er það sem það er. Stundum er ég hátt uppi og segi sögur, dansa einn, rappa og tek orminn en svo hryn ég í þyngsl og þá gef ég því rými, þyngsl þurfa úrvinnslu, þyngsl segja mér að róa sig, vertu mjúkur við þig, farðu í sorg ef hún er, ekki segja neitt, vertu bara, allt er hverfullt, meira að segja mamma þín, og ég brosi því mömmubrandarar laga allt, meira að segja mömmu þína. Boðefnaskortinn nota ég til sköpunar og streituhormón nota ég til sjálfsskoðunar. Úlfurinn sem ég eitt sinn hræddist er farin að færa mér inniskóna undirgefin og þjónandi.

Höfundur starfar sem smíðakennari, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Þvottahúsið og umboðsmaður.




Skoðun

Sjá meira


×