Á fundi bæjarráðs Árborgar í gær kom fram að íslenska ríkið hafi tekið Kumbaravog á Stokkseyri á leigu fyrir móttöku hælisleitenda án vitneskju sveitarfélagsins. Til stæði að þeir kæmu á næstu vikum. Bæjarráð benti þar á að staðsetning væri óheppileg vegna þjónustu sem hópurinn þarfnist. Málið var til umfjöllunar í fjölmiðlum í gær.

Þegar fréttastofa mætti á Kumbaravog í dag mættum við rekstraraðila sem sagði að það hefði aldrei staðið til að leigja ríkinu Kumbaravog fyrir hælisleitendur. Frétt á Vísi um málið væri bull.
Við reyndum að fá nánari útskýringar á þessu og viðkomandi sagði að það ætti ekki að fara að gera neitt. Við hringdum svo í rekstraraðilann á leið aftur í bæinn til að reyna að á enn frekari útskýringar á málinu en þá sagði hann að þreifingar hefðu verið í gangi en engir samningar hafi verið undirritaðir við ríkið. Hann gaf ekki frekari útskýringar á af hverju hann hefði áður sagt við fréttastofu að ekkert væri í gangi.
Engin fyrirvari
Bæjarráð Árborgar hefur hins vegar staðið í þeirri trú frá því í gær eftir tilkynningu frá ráðuneyti, að búið væri að undirrita samninga og hælisleitendurnir væntanlegir á næstu vikum. Þorsteinn Örn Hjartarsson sviðsstjóri velferðarsviðs Árborgar segir það hafa komið á óvart.

„Við vorum bara ekki tilbúin á þessum tímapunkti og það var engin fyrirvari að taka að okkur þennan rekstur. En að sjálfsögðu viljum við halda áfram að vinna vel að samræmdri móttöku hælisleitenda og vera í góðu samstarfi við ríkið um það,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir enn fremur að staðsetningin sé óhentug.
„Við skiljum mjög vel þörfina á að fjölga búsetuúrræðum. En þessi staðsetning hér er ekki góð. Það er mjög langt héðan upp á Selfoss og heilbrigðisþjónustu og annað þess háttar þannig að ef við ætlum að stofna þjónustu í Árborg væri miklu betra að gera það á Selfossi.Ríki og sveitafélög verða að vinna saman að þessum málum þetta tekst ekkert öðruvísi,“ segir Þorsteinn.