Í lok síðast árs lagði Hafrannsóknarstofnun til bann á humarveiðum við strendur landsins árin 2022 og 2023. Íslenskur humar er því ekki lengur í boði í fiskverslunum hér á landi heldur aðeins innfluttur humar.
Í fiskverslunum Hafsins er danskur humar nú til sölu.
„Þessi humar sem við erum með er veiddur í Norðursjó, í raun og veru bara hinu megin við línuna. Þetta er mjög sambærilegur humar og íslenski humarinn,“ segir Bjarki Gunnarsson verslunarstjóri Hafsins í Hlíðasmára.
Hann segir humarinn bragðmikinn, ekki mjölkenndan og vera svipaðan að þéttleika og íslenski humarinn. Fólk eigi því ekki að finna mikinn mun.
„Svo er þetta svolítið sálrænt. Vera að kaupa íslenskt eða kaupa erlent. Fólk finnur oft mun þó það sé ekki munur,“ segir Bjarki.
Margir séu þegar farnir að huga að jólamatnum þó tæpir tveir mánuðir séu enn til jóla
„Það er mikið spurt. Mikið hringt og fólk er byrjað að kaupa stærsta humarinn.“
Ljóst er að humarinn er vinsæll meðal landsmanna en um síðustu jólahátíð var salan á humrinum talin í tonnum.
„Við erum með tvær búðir. Við erum að selja svona tvö og hálft tonn samtals í þessum tveimur búðum. Þannig að þetta er frekar vinsælt.“
„Hann er bara allt of dýr“
Hjá fiskbúðinni Hafberg er einnig aðeins innfluttur humar í boði en nokkrar tegundir eru í boði. Þar á meðal humar frá Danmörku.
„Svo eru við líka að bjóða upp á humar frá Bandaríkjunum eða Maine Kanada sem er allur stærri og grófari,“ segir Guðmundur Óskar Reynisson fisksali hjá fiskbúðinni Hafberg.
Misjafnt verð er á humrinum eða allt frá tæpum tíu þúsund krónum kílóið upp í nærri þrjátíu þúsund. Aðspurður um hvað það kosti fyrir fjölskyldur að kaupa humar fyrir jólin segir Guðmundur það kosta sitt.
„Hann er bara allt of dýr. Það má bara segja það. Sendingin sem á eftir að koma. Ég veit ekki hvar hún mun enda en það verður örugglega eitthvað eitthvað sanngjarnt.“