Körfubolti

Isabella Ósk til liðs við Íslandsmeistarana

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Isabella Osk og Kristín Örlygsdóttir formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur við samningagerðina í Ljónagryfjunni.
Isabella Osk og Kristín Örlygsdóttir formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur við samningagerðina í Ljónagryfjunni. Njarðvík/JBÓ

Isabella Ósk Sigurðardóttir er gengin til liðs við Íslandsmeistara Njarðvíkur og mun leika með þeim út tímabilið í Subway deild kvenna í körfubolta.

Frá þessu var greint á vefsíðu Njarðvíkur í kvöld. Þar segir: „Um gríðarlegan hvalreka er að ræða enda Isabella í hópi sterkustu leikmanna deildarinnar.“

Hin 25 ára Isabella Ósk er vön því að leika í grænu þar sem hún hefur leikið með Breiðabliki allan sinn feril. Hún er með betri leikmönnum landsins undir körfunni og er með 13,3 fráköst að meðaltali í leik til þessa á leiktíðinni ásamt því að skora 12,3 stig að meðaltali í leik.

„Koma Isabellu styrkir hópinn okkar gríðarlega enda er hér á ferðinni einn af bestu leikmönnum deildarinnar. Við fögnum því að fá Isabellu í Ljónagryfjuna og erum spennt að sjá hvernig henni gangi að ná utan um þræðina í okkar liði,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur um vistaskiptin.

„Ég vissulega kveð Blika með söknuði enda mitt uppeldisfélag en held nú inn í toppbaráttuna með Njarðvík. Mér hefur fundist liðið mjög spennandi í Njarðvík og er spennt að hefja störf með Rúnari, Lárusi og þessum sterka hóp,“ sagði Isabella Ósk um skiptin.

Njarðvík er sem stendur í 4. sæti deildarinnar með fjóra sigra að loknum sjö leikjum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×