Fótbolti

Heldur áfram að dissa Salah: „Ég get gert það sem hann gerir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vincent Aboubakar var markahæsti leikmaður Afríkumótsins fyrr á þessu ári með átta mörk.
Vincent Aboubakar var markahæsti leikmaður Afríkumótsins fyrr á þessu ári með átta mörk. getty/Visionhaus

Vincent Aboubakar, fyrirliði kamerúnska landsliðsins, hefur ekki mikið álit á Mohamed Salah og fer ekkert leynt með það. Honum finnst Egyptinn ekki vera neitt spes leikmaður.

Fyrir leik Kamerúns og Egyptalands í undanúrslit Afríkumótsins í febrúar sagði Aboubakar að sér fyndist ekki mikið til Salah koma. Hann sagði að hann væri ágætis leikmaður sem skoraði mörg mörk en gerði annars ekki mikið í leikjum.

Þrátt fyrir að Kamerún hafi tapað fyrir Egyptalandi og Aboubakar spili nú í Sádí-Arabíu gefur hann Salah engan afslátt.

„Ég er ekki hrifinn af honum. Ég get gert það sem hann gerir. Ég hef bara ekki tækifæri til þess að spila með stóru félagi,“ sagði Aboubakar.

„Ég skil skoðun fólks. Hann er einn af mestu markaskorurum ensku úrvalsdeildarinnar. Það er eðlilegt að þegar þú talar svona um þannig leikmann hlusti fólk. En ég sagði bara mína skoðun og mér er slétt sama hvað fólki finnst um hana.“

Aboubakar var markahæstur á Afríkumótinu með átta mörk á meðan Salah hafði hægar um sig og skoraði aðeins tvö. Egyptaland komst þó í úrslit þar sem liðið tapaði fyrir Senegal í vítaspyrnukeppni.

Aboubakar, sem er varð tvívegis tyrkneskur meistari með Besiktas og tvívegis portúgalskur meistari með Porto, hefur skorað 37 mörk í 93 landsleikjum. Hann er fyrirliði kamerúnska landsliðsins sem er á leið á HM í Katar. Þar er Kamerún í riðli með Brasilíu, Serbíu og Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×