Í yfirlýsingu sem birt var á vef Meta, segir Zuckerberg að ákvörðunin hafi verið gífurlega erfið en að hana megi að miklu leyti rekja til faraldurs Covid. Á þeim tíma hafi fyrirtækið vaxið mjög en það hafi ekki reynst varanlegur vöxtur eins og hann og aðrir hafi búist var við.
Aukin samkeppni, versnandi efnahagshorfur og samdráttur í auglýsingasölu hafi komið niður á tekjum fyrirtækisins og þær séu mun lægri en spár Meta gerðu ráð fyrir.
Þess vegna þurfi að taka til í rekstri fyrirtækisins og draga úr kostnaði.
„Ég vil taka ábyrgð á þessum ákvörðunum og því hvernig við enduðum á þessum stað. Ég veit að þetta er erfitt fyrir alla og ég er sérstaklega leiður yfir þeim sem þetta hefur áhrif á,“ segir Zuckerberg í áðurnefndri yfirlýsingu.
Meta birti í síðasta mánuði ársfjórðungsuppgjör þar sem fram kom að tekjurnar hefðu dregist mjög saman og að hagnaður fyrirtækisins hefði minnkað um helming á milli ára.
Tekjurnar voru 27,7 milljarðar dala, samanborið við 29 milljarða á sama ársfjórðungi 2021. Hagnaðurinn eftir skatta og önnur gjöld var 4,4 milljarðar dala á ársfjórðungnum en á sama tímabili í fyrr var hann 9,2 milljarðar.
Eftir að uppgjörið var birt sagði Bloomberg frá því að virði Meta hefði dregist saman um 520 milljarða dala á einu ári.