Innlent

Slökkvi­lið kallað til á meðan á jóla­hlað­borði stóð

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Eldurinn kom upp á bakvið arinn. 
Eldurinn kom upp á bakvið arinn.  Aðsent

Eldur kom upp í skíðaskálanum í Hveradölum laust eftir miðnætti í nótt. Engan sakaði og gekk slökkvistarf vel fyrir sig.

Að sögn Lárusar Kristins Guðmundssonar, varaslökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu, komst eldur á bak við arinn og í klæðningu hússins en um timburbjálkahús er að ræða. Jólahlaðborð var í gangi í húsinu þegar eldurinn kom upp og var staðurinn rýmdur.

„Það þurfti aðeins að rífa frá arninum til þess að komast að en slökkvistarf gekk bara mjög vel,“ segir Lárus.

Slökkvistarf gekk vel og tók um tvær klukkustundir. Aðsent

Slökkviliðsmenn frá Hveragerði og Selfossi mættu á staðinn og sinntu slökkvistarfi í um tvær klukkustundir en útkallið kom klukkan korter yfir miðnætti.

Aðspurður hvort að miklar skemmdir hafi orðið á húsinu segir hann þær vera minniháttar en ekki liggi fyrir hvað gerðist. Þetta hafi farið betur en á horfðist og atvikið ætti að hafa minniháttar áhrif á starfsemi staðarins.

„Það þarf að skoða betur hvað gerist, hvað veldur þessu,“ segir Lárus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×