Í tilkynningu á vef stjórnarráðs Íslands kemur fram að Svandís hafi sagt frá sjálfstæðu markmiði Íslands um að draga úr losun sem er á beinni ábyrgð Íslendinga um 55 prósent fyrir árið 2030 og að íslensk stjórnvöld styddu áfram markmið um að takmarka hnattræna hlýnun við eina og hálfa gráðu miðað við upphaf iðnbyltingar.
Þá sagði ráðherrann frá því að ríkisstjórnin ætlaði ekki að gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands.
Samstarfsverkefnið við Síle um verndun frosinna landssvæða jarðar kallast „Metnaður um bráðnandi ís“. Sextán lönd eru sögð hafa staðfest þátttöku í því.
Á morgun á Svandís að tala á tveimur fundum um freðhvolfið og skrifa undir yfirlýsingu með ráðherrum frá Kosta Ríka, Fídjí, Nýja-Sjálandi, Noregi og Sviss vegna samnings um loftslagsbreytingar, viðskipti og sjálfbærni. Á fimmtudag á ráðherrann að funda með svissneska umhverfisráðherranum um samstarf á sviði loftslagsmál og með formanni milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.