Handbolti

Eyðimerkurganga Þjóðverja eftir að Dagur kvaddi

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson var vinsæll sem landsliðsþjálfari Þýskalands og hér vilja stuðningsmenn mynd af sér með honum á Ólympíuleikunum í Ríó, þar sem Þýskaland vann brons.
Dagur Sigurðsson var vinsæll sem landsliðsþjálfari Þýskalands og hér vilja stuðningsmenn mynd af sér með honum á Ólympíuleikunum í Ríó, þar sem Þýskaland vann brons. Getty/Lars Baron

Eftir tap Þýskalands á EM kvenna í handbolta í gær er ljóst að Þjóðverjar þurfa enn að bíða eftir næstu verðlaunum sínum á stórmóti í handbolta.

Handboltamaðurinn og sérfræðingurinn Rasmus Boysen bendir á það á Twitter að þrátt fyrir að teljast stórþjóð í handboltaheiminum þá séu nú komin fjórtán stórmót í röð hjá Þjóðverjum, í handbolta karla og kvenna, án verðlauna.

Síðustu verðlaun komu þegar Dagur Sigurðsson stýrði karlaliði Þýskalands til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó, árið 2016. Í byrjun þess árs hafði Dagur afar óvænt gert Þjóðverja að Evrópumeisturum. Hann hætti svo með þýska liðið árið 2017 og tók við Japan.

Kvennalið Þýskalands hefur ekki unnið til verðlauna síðan á HM 2007 þegar það fékk bronsverðlaun.

Þjóðverjar ákváðu að ráða aftur Íslending í febrúar 2020 þegar þeir fengu Alfreð Gíslason til að taka við karlalandsliðinu. Liðið féll út í milliriðli á HM 2021 og einnig á EM í janúar síðastliðnum en vantaði lítið upp á til að ná lengra. 

Næsta tækifæri Þýskalands til verðlauna er á HM sem hefst 11. janúar, í Póllandi og Svíþjóð. Alfreð og hans menn eru þar í riðli með Alsír, Katar og Serbíu, og komist þeir í milliriðil mæta þeir þar þremur af liðunum úr F-riðli; Noregi, Norður-Makedóníu, Argentínu eða Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×