Innlent

Iðinn sjálfs­af­greiðslu­svindlari gripinn glóð­volgur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglan sinnti ýmsum málum í gær og í nótt.
Lögreglan sinnti ýmsum málum í gær og í nótt. Vísir/Vilhelm

Maður sem virðist hafa stundað það að nýta sér sjálfsafgreiðslukassa til þess að greiða lægra verð fyrir vörur  var gripinn glóðvolgur við iðjuna í verslun í Kópavogi í gær.

Ef marka má dagbókarfærslu lögreglu, þar sem helstu verkefni lögreglu síðustu tólf tímana eru tíundu og berst fjölmiðlum á morgnana, var tilkynnt um þjófnað eða hnupl í ótilgreindri verslun í Kópavogi rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi.

„Maður á sjálfsafgreiðslu kassa staðinn að því að skanna ódýr strikamerki í staðin fyrir vörur sem hann var að kaupa. Verslunin er með 46 mál þar sem sami aðili notar þessa aðferð,“ segir í dagbókarfærslunni.

Svipar aðferðinni sem virðist hafa verið beitt til þeirrar aðferðar sem var notuð í Ikea-málinu svokallaða árið 2013, þar sem nokkrum einstaklingum var gefið að sök að hafa fært strikamerki af ódýrari vörum yfir á dýrari vörur. Nokkur sambærilegmál hafa komið upp síðan.

Þá sinntu lögreglumenn frá lögreglustöðinni á Hverfisgötu sem sinnir Austurbæ, Vesturbæ, miðbænum og Seltjarnarnesi innbroti í íbúðarhúsnæði í Múlunum í Reykjavík. Þar hafði skartgripum og öðrum verðmætum verið stolið.

Síðdegis í gær stöðvaði lögregla einnig bíl í Árbænum. Ökumaður bílsins er grunaður um ólöglega sölu áfengis og viðurkenndi að hafa skömmu áður selt manni þrjá brúsa af áfengi. Skýrsla var rituð um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×