Katrín boðaði Halldór Benjamín ásamt fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar á fund sinn í dag. Þar var staðan í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði til umræðu. Staðan í viðræðunum hefur verið metin þung eftir ákvörðun Seðlabankans í gær um að hækka stýrivexti, sem virðist hafa sett viðræðurnar í uppnám.
„Forsætisráðherra fór yfir stöðuna eins og hún blasir við ráðuneytinu. Svona opnaði á mögulegar aðgerðir sem ríkistjórnin gæti komið með til þess að liðka fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði,“ sagði Halldór Benjamín að loknum fundi, aðspurður um hvað hafi þar komið fram.
Hann segir að í gær hafi vatnaskil orðið í kjaraviðræðunum.
„Í gær urðu vatnaskil í þessum viðræðum. Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin kaus að snúa bökum saman. Ég lít á þennan fund og þessa boðun hérna í morgun með þeim hætti að forsætisráðherra sé í raun bara að segja: Við stöndum með ykkur, við kjósum að þið reynið að leysa úr þessum vandamálum og reynið að landa skammtímakjarasamningi eins fljótt og auðið er,“ sagði Halldór Benjamín.
Markmið dagsins skýrt
Hann segir markmið dagsins að halda kjaraviðræðunum áfram, eftir ágætan fund með forsætisráðherra og öðrum aðilum vinnumarkaðarins í morgun, þar sem var að mati Halldórs Benjamín stigið jákvætt skref.
„Markmið dagsins er alveg skýrt og við komum ágætlega nestuð eftir þennan fund með forsætisráðherra. Markmiðið er að halda áfram að vinna að gerð kjarasamnings og koma þessum viðræðum aftur á þá teina sem þær voru komnar á áður en að peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti um þessa misráðnu ákvörðun sína,“ sagði Halldór Benjamín.
Hann vildi þó ekki segja til um hvort að dagurinn í dag væri einhvers konar úrslitadagur í viðræðunum.
„Manni er kennt í grunnskóla að setja aldrei pressu á sjálfan sig að óþörfu. Ég held að það sjái það allir að hér er mikið undir en ég skynja ekki annað en að það sé vilji beggja vegna borðs að reyna að komast að niðurstöðu. Við skulum allavega sjá og spyrja okkur í dagslok hvernig það hefur gengið,“ sagði Halldór Benjamín.
Hann segir að mikil áhersla hafi verið lögð á skammtímasamning í viðræðunum hingað til og reiknaði Halldór Benjamín ekki með að breyting yrði á því í dag.
„Við erum svo sem ennþá með alla valmöguleika á borðinu en svona í ljósi þeirrar óvissu sem hefur komið. Í ljósi þeirrar verðbólgu og óvissu vegna ytri aðstæðna þá hefur já, verið mikil áhersla lögð á skammtímasamning og ég geri ráð fyrir því að við munum ræða það betur inn í daginn.“