Körfubolti

KR skiptir út manni fyrir botnslaginn mikilvæga

Sindri Sverrisson skrifar
Saimon Sutt reynir að verjast í tapleiknum gegn Val sem reyndist hans síðasti heimaleikur fyrir KR.
Saimon Sutt reynir að verjast í tapleiknum gegn Val sem reyndist hans síðasti heimaleikur fyrir KR. VÍSIR/BÁRA

KR-ingar stefna á að tefla fram nýjum leikmanni á fimmtudaginn í leiknum mikilvæga gegn ÍR í Subway-deild karla í körfubolta. Þeir sendu annan leikmann heim í staðinn.

Hinn 26 ára gamli Aapeli Alanen frá Finnlandi er mættur til landsins og mun spila með KR í vetur. Hann er 201 sentímetri á hæð og lék síðasta vetur með St. Pölten í efstu deild Austurríkis, þar sem hann skoraði að meðaltali 16,6 stig í leik, tók 5,6 fráköst og gaf 1,9 stoðsendingar. 

Áður lék Alanen í finnsku úrvalsdeildinni og þá hefur hann leikið með A-landsliði Finnlands auk yngri landsliða.

KR-ingar sögðu hins vegar upp samningi við Eistlendinginn Saimon Sutt en hann hefur verið mikið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með KR, til að mynda í Subway Körfuboltakvöldi. 

Sutt var að meðaltali með 1,5 stig og einnig 1,5 stoðsendingu og 1,8 frákast í leik, á að meðaltali 18 mínútum sem hann spilaði, í fjórum leikjum mðe KR.

KR-ingar eru í afar slæmri stöðu á botni Subway-deildarinnar ásamt Þór Þorlákshöfn en liðin hafa unnið einn leik hvort og tapað sex. ÍR er í 10. sætinu með tvo sigra svo leikur KR og ÍR í Vesturbænum á fimmtudag er afar mikilvægur en hann verður sýndur á Stöð 2 Sport.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×