Kristján Þór Snæbjörnsson, forseti ASÍ, sem setið hefur á fundum í dag fyrir hönd rafiðnaðarsambandsins sagði við fréttastofu um klukkan sex að langur dagur væri að baki. Hann var nokkuð bjartsýnn á framhaldið og sagði að samflot tækni- og iðnaðarmanna myndi funda aftur á morgun.
Viðræður Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins hafa verið í brennideplinum, en talið er að þær geti gefið gott fordæmi fyrir viðræður annarra félaga. Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, segir stöðuna erfiða og snúna.
„En við erum að reyna að ná þessu saman. Hvort það tekst, það verður bara tíminn að leiða í ljós,“ sagði hann.
Krónutölur en ekki prósentur
Kjarninn greindi frá því í dag að rætt hefði verið um fjögurra prósenta hækkun með 20 þúsund króna þröskuldi og 40 þúsund króna þaki. Vilhjálmur segist talsmaður þess að lágtekjufólk semji ekki í prósentum. Það standi ekki til.
„Þannig að hvað það varðar, þá er þetta rangt. [...] Það er alveg vonlaust að úttala sig um krónur og aura fyrr en það liggur fyrir kjarasamningur á borðinu.“
Langir dagar að baki
Líkt og greint hefur verið frá hefur VR sagt sig frá viðræðum fyrir helgi. Fulltrúar félagsins funduðu þó í Karphúsinu í gær, en ekki í dag. Að sögn ríkissáttasemjara voru þeir einfaldlega ekki boðaðir til fundar í dag. Það verði kannski gert á morgun.

„Þetta var mjög langur dagur og hafa verið langir dagar undanfarið. Það eru allir að leggja sig fram en eins og ég hef sagt áður þá er þetta þungt og erfitt samtal. En það er samtal í gangi,“ sagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Ekki verður fundað fram eftir kvöldi en hann segist telja skynsamlegt að fólk taki sér tíma til að hvílast og mæti aftur til funda klukkan eitt á morgun.