Fánarnir eru mjög víða, oft við opinberar stofnanir eins og við sjúkrahús, þá sjást þeir við leikskóla, jafnvel við heimili fólks og við Ölfusárbrú á Selfossi eru fánar sitthvoru megin við brúna svo einhverjir staðir séu nefndir.
En hver er ástæðan fyrir þessum fánum, jú, þetta er alþjóðlegt átak gegn ofbeldi, árlegt átak sem haldið er um allan heima . Átakið hófst 25. nóvember og lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember.
„Við segjum nei við öllu ofbeldi og þetta er „Orange world”, þannig að appelsínugult er þemað. Við erum búnar að fá fána til að setja í öll sveitarfélög á Suðurlandi og við sumar stofnanir og svo er víða verið að lýsa upp í orans litum við stofnanir, bæði kirkjur og ráðhús og víða,” segir Jóna Ingvarsdóttir, formaður Soroptimistaklúbbs Suðurlands, sem stendur meðal annars fyrir átakinu.
Jóna segir að átakið snúist jafnt um konur, sem karla, öllu ofbeldi sé mótmælt.
„Við erum náttúrulega að reka Sigurhæðir, sem er bara fyrir konur en Sigurhæðir er staður, sem konur geta komið í meðferð þegar þær hafa lent í ofbeldi,” segir Jóna enn fremur.
Í tilefni af átakinu er meðal annars verið að selja appelsínugul blóm og svo eru strákarnir í GK bakaríi á Selfossi með í átakinu á skemmtilegan hátt.
„Heyrðu við erum að bjóða upp á appelsínu og súkkulaði snúða með marsipan fyllingu og appelsínu. Við verðum með stóru snúðana í sölu í bakaríinu og allur ágóði rennur óskiptur til átaksins og svo geta fyrirtæki og einstaklingar pantað litla snúða hjá okkur, sem eru tilvaldir á kaffiborðið,” segir Guðmundur Helgi Harðarson, bakari hjá GK bakaríi á Selfossi.
Eruð þið að fá góðar viðtökur?
„Já, já, þetta er búið að fara ágætlega af stað en það má alltaf gera betur,” bætir Kjartan Ásbjörnsson, bakari hjá GK bakaríi á Selfossi við.
