Skoðun

Af­reks­stefnu­leysi stjórn­valda

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Vorið 2021 samþykkti Alþingi tillögu mína um að mótuð yrði stefna fyrir afreksfólk í íþróttum, í samvinnu við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands og sveitarfélög landsins. Sömuleiðis átti að tryggja fjárhagslegan stuðning við afreksfólk. Þessa stefnu átti ráðherra að leggja fram á þingi eigi síðar en 1. júní í ár.

Þar sem ekkert bólaði á stefnunni í sumar spurði ég Ásmund Einar Daðason ráðherra íþróttamála um málið í skriflegri fyrirspurn 29. september. Svarið barst 28. nóvember, heilum tveimur mánuðum síðar. Þar segir ráðherra að það sé ekki stjórnvalda að setja stefnu fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar, það sé hlutverk Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.

Þannig ætlar ráðherrann að koma sér frá ábyrgð sinni á skortinum á opinberri stefnumótun og fjármögnun afreksíþrótta – og koma sér hjá því að fara að vilja Alþingis sem samþykkti tillögu mína einróma. Svo er það nú þannig að tillagan mín fól í sér gerð stefnu í samvinnu við íþróttahreyfinguna. Það var líka samhljómur meðal þeirra umsagna sem bárust við, m.a. frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands og UMFÍ, um að mikilvægt væri að frekari stefnumótun stjórnvalda færi heim og saman við þær áherslur sem íþróttahreyfingin setti fram á Íþróttaþingi ÍSÍ. Jafnframt var bent á íþróttastefnu ríkisins (!) frá maí 2019 sem fæli í sér mikla samvinnu og samráð innan íþróttahreyfingarinnar.

Auðvitað er það svo bara einskær tilviljun að á sama tíma og ég spurði ráðherra um afdrif málsins, lagði hann fram tillögu í ríkisstjórninni um skipun starfshóps með fulltrúum þriggja ráðuneyta, íþróttahreyfingarinnar og annarra sem eiga hagsmuna að gæta til að gera tillögur um úrbætur á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að koma stuðningi við afreksíþróttafólk í fremstu röð.

Sannarlega er aðalmálið hér að með samþykkt tillögunnar minnar virðist Alþingi hafa tekist að hrista svo upp í stjórnvöldum að vonast má til að almennileg, tímasett og fjármögnuð afreksstefna í íþróttum verði loks að veruleika eftir langa og stranga baráttu afreksíþróttafólksins okkar.

En mikið er þetta hallærisleg afgreiðsla hjá ráðherranum. Svo hallærisleg að það er eiginlega afrek í sjálfu sér.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×