Fótbolti

Neu­er fót­brotnaði á skíðum og verður ekki meira með á leik­tíðinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manuel Neuer verður frá keppni næstu mánuðina.
Manuel Neuer verður frá keppni næstu mánuðina. Christian Charisius/Getty Images

Segja má að Manuel Neuer, markvörður þýska landsliðsins í fótbolta og Bayern München hafi farið úr öskunni í eldinn. Hann verður ekki meira með á leiktíðinni þar sem honum tókst að fótbrotna á skíðum eftir að Þýskaland komst ekki upp úr riðli sínum á HM.

Þýskaland sat eftir með sárt ennið í E-riðli en óvænt tap liðsins gegn Japan í fyrstu umferð kostaði liðið sæti í 16-liða úrslitum á HM sem nú fer fram í Katar. Japan vann riðilinn og Spánn endaði í 2. sæti með betri markatölu.

Hinn 36 ára gamli Neuer stóð vaktina í marki Þýskalands á mótinu. Eftir að Þýskaland féll úr keppni vildi hann dreifa huganum og skellti sér því á skíði. Það fór ekki betur en svo að Neuer fótbrotnaði og verður nú frá keppni það sem eftir lifir tímabils.

Neuer sjálfur greindi frá þessu á Instagram-síðu sinni en hann hefur þegar farið í aðgerð sem ku hafa fengið vel. Hann mun þó ekki spila meira fyrr en haustið 2023 og því þarf Bayern að gera sitt besta til að verja Þýskalandsmeistaratitilinn án hans. Það ætti ekki að reynast liðinu of erfitt en gott gengi í Meistaradeild Evrópu verður mun erfiðara án markvarðarins magnaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×