Í gær felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi úrskurð kærunefndar útlendingamála um brottvísun Husseins Husseins, hælisleitenda frá Írak og fjölskyldu hans í nóvember. Að óbreyttu ættu íslensk stjórnvöld að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar.
Fjölskyldan kom til landsins um helgina og mættu Hussein systurnar í Fjölbrautarskólann við Ármúla í morgun til að velja áfanga fyrir næstu önn en systurnar hafa stundað námið í fjarnámi í þann tíma sem þær voru í Grikklandi.
„Ég valdi áfanga sem undirbúa mig undir læknisfræði, ensku, íslensku, stærðfræði og fleira. Mig langar að verða læknir á Íslandi,“ sagði Zahraa Hussein.
Systir hennar Yasameen Hussein valdi áfanga sem undirbúa hana undir tannlæknisfræði.

Báðar segjast þær himinlifandi með að vera komnar aftur í skólann og hafa náð fínum tökum á íslenskunni.
„Mér finnst gaman að vera komin aftur til Íslands,“ sagði Yasameen Hussein.
Skólameistarinn Magnús Ingvason fagnar komu systranna í skólann. Máli fjölskyldunnar er þó ekki lokið og óvíst hvað verður í framhaldinu.
„Ég er himinlifandi. Þetta mál fær vonandi farsælan endi. Þær komu hér aftur í skólann, stóðu sig einstaklega vel á síðustu önn og náðu að klára nokkra áfanga í fjarnámi. Fínar einkunnir og eru að velja núna fullt af áföngum fyrir næstu önn og ég vona að það verði engin truflun þar á,“ sagði Magnús.
Prófatörn fer nú fram í skólanum og segir Magnús skólafélaga systranna spennta að hitta þær eftir prófin.
„Já þetta verður gaman fyrir alla að hittast eftir áramót og það verður tekið vel á móti þeim.“