Breytingatillaga nefndarinnar við fjárlagafrumvarpið var lögð fram í gær.
Þau Hildur, Kristín, Manfreð og Þórhildur koma í stað fjögurra sem voru á listanum en féllu frá á síðasta ári eða á því sem senn er á enda. Alls eru 25 listamenn á lista þeirra sem hljóta heiðurslaun listamanna.
„Á árunum 2021 og 2022 létust fjórir úr hópi þeirra listamanna sem nutu heiðurslauna, Jón Sigurbjörnsson og Vilborg Dagbjartsdóttir á árinu 2021 og Guðrún Helgadóttir og Þuríður Pálsdóttir árið 2022,“ segir í greinargerðinni með breytingatillögunni.
Hildur Hákonardóttir er myndvefari og rithöfundur, Kristín Þorkelsdóttir grafískur hönnuður sem hannaði meðal annars íslensku peningaseðlana og vegabréfin, Manfreð Vilhjálmsson er arkitekt og Þórhildur Þorleifsdóttir leikkona og leikstjóri.
Þetta er í fyrsta sinn sem listamaður úr röðum grafískra hönnuða og arkitekta kemst á listann.
Verði tillagan samþykkt mun listi yfir þá sem hljóta heiðurslaun listamanna líta þannig út:
- Bubbi Morthens
- Erró
- Friðrik Þór Friðriksson
- Guðbergur Bergsson
- Guðrún Ásmundsdóttir
- Gunnar Þórðarson
- Hannes Pétursson
- Hildur Hákonardóttir
- Hreinn Friðfinnsson
- Jón Ásgeirsson
- Jón Nordal
- Jónas Ingimundarson
- Kristbjörg Kjeld
- Kristín Jóhannesdóttir
- Kristín Þorkelsdóttir
- Magnús Pálsson
- Manfreð Vilhjálmsson
- Matthías Johannessen
- Megas
- Steina Vasulka
- Vigdís Grímsdóttir
- Þorbjörg Höskuldsdóttir
- Þorgerður Ingólfsdóttir
- Þórhildur Þorleifsdóttir
- Þráinn Bertelsson