Markús Andri Sigurðsson, vöruflokkastjóri hjá Krónunni, segir að þar á bæ hafi álíka ástand aldrei sést áður.
„Það voru mun fleiri sem könnuðust við vöruna en við bjuggumst við. Hún seldist upp á nokkrum klukkustundum,“ segir Markús.
Eftirspurnin var svo mikil að viðskiptavinum Krónunnar var bannað að kaupa fleiri en tólf flöskur af Prime í dag.
„Við vildum að sem flestir gætu keypt og smakkað og höfðum áhyggjur af því að einhverjir myndu kaupa mjög margar flöskur.“
Markús segir að mögulega hefði verið hægt að takmarka fjöldann enn frekar því mun færri hafa komist að en vildu. Ekki liggur fyrir hvenær næsta sending kemur til landsins.
Heimsfrægir áhrifavaldar tóku höndum saman
Í kjölfar þess að drykkurinn seldist upp í verslunum hafa flöskur af Prime verið til sölu á samfélagsmiðlum fyrir fúlgur fjár. Slík sala hefur einnig átt sér stað áður en drykkurinn rataði hingað til lands og en fólk hefur keypt flöskur að utan og selt á netinu.
Prime er framleiddur af tveimur áhrifavöldum sem njóta mikillar frægðar á heimsvísu. Þeir kallast KSI og Logan Paul. Þeir voru meðal annars andstæðingar í boxhringnum áður en þeir fóru að vinna saman að Prime og síðan þá hafa þeir notað umsvif sín á samfélagsmiðlum til að vekja athygli á drykknum, aðallega meðal ungs fólks, og selja hann.
Byrjað var að selja Prime í Bretlandi í október og þar var eftirspurnin gífurleg. Langar biðraðir mynduðst við verslanir Asda, sem seldi drykkinn þar, og var fólki ekki leyft að kaupa fleiri en þrjár flöskur í einu, samkvæmt frétt Guardian.
Í lok október bárust fregnir af því í Bretlandi að flaska af Prime hafi verið til sölu á eBay á tíu þúsund pund. Asda seldi flöskuna á tvö pund.
Uppfært:
KSI tísti fyrr í kvöld um að Prime væri nú fáanlegt á Íslandi og ítrekaði að hann væri að tala um landið, ekki bresku verslunina. Tístið birti hann þó eftir að drykkurinn varð uppseldur.