Innlent

Hótaði þremur fé­lögum sínum með skot­vopni á Heims­enda í Kópa­vogi

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynning barst lögreglu upp úr klukkan tvö í nótt. Fólkið hafði verið að sumbli í hesthúsi á Heimsenda í Kópavogi.
Tilkynning barst lögreglu upp úr klukkan tvö í nótt. Fólkið hafði verið að sumbli í hesthúsi á Heimsenda í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann sem hafði hótað þremur félögum sínum með skotvopni í hesthúsahverfinu á Heimsenda í Kópavogi í nótt.

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til og myndaðist hálfgert umsátursástand í tvo tíma áður en tókst að tala um fyrir manninum og fá hann til að gefa sig fram.

Þetta staðfestir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Kópavogi, í samtali við Vísi.

Gunnar segir að tilkynning hafi borist upp úr klukkan tvö og að maðurinn hafi gefið sig fram um klukkan fjögur. Hann hafi verið vopnaður haglabyssu.

Gunnar segir að fólkið hafi setið að sumbli og verið mjög ölvað. Þó að fólkið hafi ekki komið út fyrr en á sama tíma og maðurinn segir Gunnar að hann vilji ekki flokka þetta sem gíslatöku.

Enn á eftir að ræða við manninn, en búið er að sleppa hinum. Gunnar segir að engum skotum hafi verið hleypt af.

Hesthúsahverfið Heimsendi í Kópavogi. Myndin er úr safni.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×