Eftir að verða Íslandsmeistari frá 2014 til 2019 þá hefur heldur betur fjarað undan hlutunum hjá KR. Liðið hefur orðið verra með hverju árinu síðan síðasti Íslandsmeistaratitillinn fór á loft og þá hafa ýmsir hlutir utan vallar haft áhrif á stemninguna í kringum liðið.
Sem stendur er KR á botni Subway deildarinnar og í tómu tjóni. Liðið hefur unnið einn af tíu leikjum sínum í deildinni og skiptir um útlendinga líkt og venjulegt fólk skiptir um nærbuxur. Sævar Sævarsson, einn af sérfræðingum Körfuboltakvölds, skoraði nýverið á þá Matthías Orra og Brynjar Þór Björnsson að taka fram skóna á nýjan leik og hjálpa sínu gamla félagi.
Það virðist sem Matthías Orri ætli að taka þeirri áskorun ef marka má heimildir Vísis. Hann hefur allavega sést á æfingum með meistaraflokki KR að undanförnu.
Næsti deildarleikur KR er gegn Stjörnunni þann 29. desember og hver veit nema Matthías Orri Sigurðarson verði á gólfinu frekar en upp í stúku.