Innlent

Réðst á afgreiðslustúlku og sló hana í­trekað í and­litið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til rétt fyrir klukkan 22 í gærkvöldi þegar ungur maður réðst á stúlku sem var að störfum í verslun í Kópavogi og sló hana ítrekað í andlitið.

Stúlkan hlaut roða í vanga og eins blæddi úr munnviki hennar eftir árásina.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu um verkefni næturinnar var reynt að ræða við árásarmanninn, sem var í fylgd föður síns. Mögulega var um veikindi að ræða, segir í tilkynningu lögreglu.

Fyrr um kvöldið barst tilkynning um eld í eldhúsi hótels í póstnúmerinu 108. Eldurinn var sagður hafa komið upp í eldhúseyju en starfsfólk hótelsins var búið að aftengja rafmagn.

Nokkur reykur var á vettvangi en hann sagður afmarkaður við eldhúsið. 

Lögreglu barst einnig tilkynning um eld í bifreið í Hafnarfirði. 

Ökumaður hafði setið í bifreiðinni í um það bil 15 mínútur þegar hann fór að finna lykt. Hann yfirgaf bifreiðina og fljótlega sást loga eldur undir vélarhlífinni. Slökkvilið kom á vettvang og slökkti eldinn en bifreiðin var mikið skemmd og flutt af vettvangi.

Í póstnúmerinu 109 var ofurölvi og ósjálfbjarga maður handtekinn við verslunarmiðstöð. Ekki reyndist hægt að fá gistingu fyrir manninn og var hann því vistaður í fangageymslu.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um ýmis umferðarlagabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×