Rússneska fréttaveitan Interfax greindi frá þessari ákvörðun borgarráðs Múrmansk, sem tekin var í síðustu viku.
Í frétt Interfax segir að allir 23 fulltrúar í borgarráði hafi samþykkt að slíta vinabæjarsamstarfinu.
Haft er eftir Olgu Dzyuba, næstráðanda í borgarráðinu að þann 28. nóvember síðastliðinn hafi stjórnsýslu Múrmansk borist bréf frá Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, þar sem borgaryfirvöldum Múrmansk var greint frá ákvörðun bæjarstjórn Akureyrar að slíta vinasambandinu.
Segir í frétt Interfax að ákvörðun borgarráðs Múrmansk sé tekin til að svara bæjaryfirvöldum á Akureyri í sömu mynt.
Samþykkt var einróma á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í nóvember að slíta umræddu vinabæjarsamstarfi.
Ákvörðunin var tekin vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þá kom einnig fram í umfjöllun um ákvörðun bæjarstjórnar að vinabæjarsamstarfið á milli Akureyrar og Múrmansk, sem komið var á árið 1994, hafi ekki verið virkt í mörg ár.