Sveitarfélögin hafa ákaft og ítrekað kallað eftir sanngjarnari kostnaðarskiptingu vegna málaflokks fatlaðs fólks eftir að þjónustan var flutt yfir á sveitarstjórnarstigið 2011 en hallinn vegna þjónustunnar nam 14,2 milljörðum á síðasta ári.
Í vikunni var samningur undirritaður á milli þriggja ráðuneyta og SÍS sem skilar sveitarstjórnum fimm milljörðum króna á næsta ári. Útfærslan er þannig að útsvarsálagning sveitarfélaga hækkar um 0.22% gegn samsvarandi lækkun tekjuskatts ríkisins. Við þessa tilfærslu fjármuna eykst skattbyrði einstaklinga ekki. Málaflokkurinn er þyngstur allra hjá Reykjavíkurborg. Einar Þorsteinsson er formaður borgarráðs.
„Þær tillögur sem birtust í fjárlögum núna rétt fyrir jólin eru mjög gott fyrsta skref og sveitarfélögin hafa núna um allt land verið að hækka útsvarsprósentu sína á sama tíma og ríkið lækkar sínar álögur þannig að þetta kemur út á jöfnu fyrir almenning en það fást þá fimm milljarðar inn á sveitarstjórnarstigið til að standa undir rekstri málaflokks fatlaðs fólks en miðað við að hallinn 2021 yfir landið er um 14 milljarðar þá eru þessir milljarðar hluti af þeirri upphæð. Reykjavíkurborg sinnir mjög umfangsmikilli þjónustu og það er mjög brýnt að ríkið komi með einbeittari hætti inn í þetta mál,“ segir Einar.
Í samningnum er kveðið á um að ráðist verði í rekstrarúttektir hjá sveitarfélögunum þar sem skoðað verður hvernig þeim gengur að reka þjónustuna. Einar segist fagna slíkri úttekt.
„Ég held það muni einfaldlega styrkja kröfugerð sveitarfélaganna gagnvart ríkinu í þessu.“
En í dag samþykkti innviðaráðherra tillögu jöfnunarsjóðs um úthlutun á sérstöku 700 milljóna króna framlagi vegna yfirstandandi árs. Af þessari úthlutun fær borgin mest eða tæp 52% en útreikningur á skiptingu framlagsins byggist á rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga á árinu 2021.