Fótbolti

Fjölskyldu fótboltahetju meinað um brottför frá Íran

Valur Páll Eiríksson skrifar
Daei er á meðal þeirra sem dró í riðla á nýafstöðnu heimsmeistaramóti.
Daei er á meðal þeirra sem dró í riðla á nýafstöðnu heimsmeistaramóti. Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Fjölskyldu Ali Daei, mestu knattspyrnuhetju í sögu Íran, var meinað um að yfirgefa landið. Fyrrum framherjinn hefur talað gegn yfirvöldum í ríkinu.

Eiginkona og dóttir Daei voru á leið til Dubai á móts við Daei, þar sem fjölskyldan ætlaði í frí saman. Flugvélinni var hins vegar snúið við og látin lenda á íranskri eyju á Persaflóa.

Þar voru þær mæðgur fjarlægðar úr vélinni og beint heim til höfuðborgarinnar Teheran. Þeim var engin ástæða gefin fyrir því að þeim var meinuð brottför frá Íran.

Daei er á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt írönsk stjórnvöld síðustu misseri en mikil mótmælaalda hefur geisað í landinu frá því í september. Þá lést ung kona, Mahsa Amini, í haldi lögreglu. Hún hafði verið handtekin fyrir þær sakir að klæðast slæðu á höfði sér með röngum hætti.

Yfir 500 mótmælendur, þar á meðal 69 börn, hafa dáið í Íran síðustu þrjá mánuði. Þúsundir hafa þá verið handtekin.

Daei segist engar ástæður hafa verið gefnar fyrir farbanni konu sinnar og dóttur.

Daei er á meðal fremstu íþróttamanna í sögu Asíu en hann skoraði 109 mörk fyrir Íran í 148 landsleikjum á árunum 1993 til 2006. Hann var markahæsti landsliðsmaður sögunnar frá 2006 þar til í fyrra þegar Cristiano Ronaldo hirti metið af honum með sínu 110. marki fyrir Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×