Andlátið er það síðasta í röð dularfullra dauðsfalla rússneskra auðmanna á síðustu mánuðum, en margir þeirra höfðu þá gagnrýnt innrás Rússa í Úkraínu.
Antov var í hópi fjögurra sem voru á ferðalagi í héraðinu Odisha í austurhluta Indlands. Milljarðamæringurinn, sem einnig var virkur í sveitarstjórnarmálum í bænum Vladimír, austur af Moskvu, hafði haldið upp á afmæli sitt á hótelinu.
Antov rataði í fréttirnar í Rússlandi síðasta sumar þar sem hann hafnaði að hafa gagnrýnt stríðsrekstur Rússa eftir að meint WhatsApp-skilaboð hans höfðu verið birt opinberlega. Þar var hann sagður hafa sagt að erfitt væri að kalla árás Rússa á íbúðablokk í Sjevtsjenkivskí-hverfinu í Kænugarði í júní síðastliðinn sem nokkuð annað en hryðjuverk.
Rússneskir fjölmiðlar segja að hinn 65 ára Antov hafi látist eftir að hafa fallið út um glugga á hóteli í bænum Rayagada. Vinur hans, Vladimir Budanov, lést á hótelinu síðastliðinn föstudag.
Talsmaður lögreglu í Odisha segir að Budanov hafi látist af völdum heilablóðfalls og að vinur hans [Antov] hafi verið miður sín vegna andláts vinar síns að hann hafi sömuleiðis látist.
Ræðismaður Rússlands í Kolkata segir í samtali við fréttaveituna Tass að lögregla á Indlandi telji að ekkert saknæmt hafi átt sér stað.
Pavel Antov stofnaði á sínum tíma kjötvinnsluna Vladimir Standard og mat Forbes auðævi hans á um 140 milljónir Bandaríkjadala.