Fótbolti

Hand­tóku fót­bolta­menn eftir rassíu í ný­ár­s­partýi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íranski landsliðsmaðurinn Abolfazl Jalali grátandi eftir tap íranska liðsins á HM í Katar.
Íranski landsliðsmaðurinn Abolfazl Jalali grátandi eftir tap íranska liðsins á HM í Katar. Getty/David Ramos

Lögreglan mætti sem óboðinn gestur í nýárspartý fótboltamanna úr efstu deild í Íran í gær og tók fjölda þeirra með sér upp á stöð.

Ástæðan er brot á ströngum reglum múslima um áfengisnotkun sem og brot á öðrum íslömskum reglum um skemmtanahald.

Leikmennirnir voru ekki nefndir á nafn í fréttum miðla í Íran heldur aðeins að þeir væru leikmenn í efstu deild fótboltans í landinu.

Tasnim fréttastofan sagði að þarna hafi bæði verið núverandi og fyrrverandi leikmenn ónefnds fótboltaliðs frá Tehran. Í fréttinni kemur fram að margir gestir samkvæmisins hafi verið drukknir.

Nýárapartý liðsins var haldið austur af höfuðborginni en lögreglan mætti á svæðið. Önnur fréttaveita, YJC, segir að allir nema einn af þeim handteknu hafi verið látnir lausir og sá hinn sami sé ekki fótboltamaður. Það má hins vegar búast við því að þeir eigi allir kæru yfir höfði sér.

Íslamskar reglur banna ekki aðeins áfengisnotkun heldur einnig samskipti kynjanna fyrir utan hjónaband.

Það hefur verið mikil ólga í Íran eftir að íranska konan Mahsa Amini lést í höndum írönsku siðgæðislögreglunnar í september. Amini var handtekin fyrir að nota ekki hijab-slæðu á almannafæri.

Mikil mótlæti hafa verið í landinu síðan og hörð viðbrögð ráðamanna við þeim hafa bæði kostað fjölmarga lífið auk þess að margir mótmælendur hafa verið handteknir og eiga sumir dauðadóm yfir höfði sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×