Gengið var frá kaupunum milli jóla og nýárs og eiga Hörður Guðmundsson og fjölskylda núna þriðjung í félaginu. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Hörð á Reykjavíkurflugvelli í dag.
„Allt hefur sinn tíma. Við erum búin að vera að huga að þessu um nokkurn tíma. Þetta hefur verið fjölskyldufyrirtæki og verður kannski að einhverju leyti áfram,“ segir Hörður.
Eftir breytinguna á Mýflug þriðjung í Erni og aðrir fjárfestar þriðjung en Hörður segir að engin umskipti verði í rekstri félaganna.
„Það er ekki verið að fara út í neina ævintýramennsku. Það er bara verið að styrkja tvö lítil flugfélög og gera þau aðeins sterkari heldur en þau kannski hafa verið. En framtíðin er nokkuð björt.“
Hörður segir að aukin hagkvæmni eigi að nást, eins og í rekstri og markaðsstarfi, en ekki sé stefnt að samruna félaganna.
„Nei. Mýflug er bara, eins og Ernir, lítið en öflugt félag. Við náum þarna ákveðnum samlegðaráhrifum sem er hollt fyrir bæði félögin. Þessi félög verða rekin áfram, allavega fyrst um sinn, sem bara tvö sjálfstæð félög,“ segir Hörður.
Ernir er, miðað við kennitölu, elsta starfandi flugfélag landsins. Hörður stofnaði það á Ísafirði árið 1970, var sjálfur byrjaður að fljúga árið áður, og hann verður áfram forstjóri.
-En ert þú sjálfur að setjast í helgan stein?
„Nei, nei. Hvað? Það er engin ástæða til þess. Enn ungur maður og fullur starfsorku.“
-Þannig að þú verður áfram forstjóri Ernis?
„Ja, kannski til að byrja með. Svo sjáum við bara til,“ svarar Hörður Guðmundsson, forstjóri Flugfélagsins Ernis.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2