Handbolti

Dönsku stjörnurnar taka undir með Björgvini Páli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Niklas Landin og Rasmus Lauge brugðust við ákalli Björgvins Páls Gústavssonar.
Niklas Landin og Rasmus Lauge brugðust við ákalli Björgvins Páls Gústavssonar. epa/FOCKE STRANGMANN

Stór nöfn í handboltaheiminum taka undir gagnrýni Björgvins Páls Gústavssonar á umdeildar Covid-reglur IHF sem verða í gildi á HM í handbolta sem hefst í næstu viku.

Alþjóðahandknattleikssambandið hefur sætt töluverðri gagnrýni vegna ákvörðunar þess að skylda leikmenn til Covid-skimana á meðan HM stendur. Björgvin hefur látið vel í sér heyra vegna reglnanna umdeildu og sendi meðal annars bréf á IHF vegna þeirra.

Björgvin birti tístið á Twitter þar sem hann óskaði eftir stuðningi, ekki síst frá leikmönnum á HM. Og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Þegar þetta er skrifað hafa 167 þúsund manns séð tíst Björgvins, 1430 manns líkað við það og 311 endurtíst því.

Þar á meðal eru nokkrir samherjar hans í íslenska landsliðinu, Miha Zvizej, fyrrverandi leikmaður slóvenska landsliðsins, og síðast en ekki tvær skærustu stjörnur danska landsliðsins.

Þetta eru þeir Niklas Landin, fyrirliði og markvörður danska liðsins, og leikstjórnandi þess, Rasmus Lauge.

Þrátt fyrir mikla gagnrýni situr IHF fast við sinn keip. Í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér segir að það leggi mikla áherslu á að varðveita heilsu leikmanna.

„Við höfum sett upp prófunaráætlun sem á að beita á heimsmeistaramótinu til að tryggja að allir leikmenn séu heilir og geti spilað leiki. Handbolti er kraftmikill og hraður leikur með mikilli líkamssnertingu og því krefst þess að allir leikmenn séu við góða heilsu,“ segir í yfirlýsingunni.

„Þar sem einkennalausir smitberar veirunnar geta einnig smitað aðra leikmenn og hagsmunaaðila, eru fyrirhuguð próf áhrifaríkasta ráðstöfunin til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar og halda öllum hagsmunaaðilum öruggum og heilbrigðum.“

Björgvin og félagar hans í íslenska liðinu héldu til Þýskalands í dag. Þeir mæta heimamönnum í tveimur vináttulandsleikjum um helgina.

Landin, Lauge og félagar í danska landsliðinu rústuðu Sádí-Arabíu í vináttulandsleik í gær, 43-16. Danir eru í riðli með Belgum, Bareinum og Túnisbúum á HM.


Tengdar fréttir

Furðar sig á ströngum Covid-reglum: „Ekkert annað en þvæla og vitleysa“

Ívar Benediktsson, ritstjóri vefmiðilsins Handbolti.is, var gestur í seinasta þætti af hlaðvarpi Seinni bylgjunnar þar sem hitað var upp fyrir komandi heimsmeistaramót í handbolta. Ívar ræddi meðal annars um þær ströngu Covid-reglur sem verða í gildi á mótinu og finnst þær í skásta lagi furðulegar.

Formaður HSÍ: „Höfum reynt að bregðast við“

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ segir erfitt úr þessu að breyta reglum IHF um viðbrögð sambandsins komi upp kórónuveirusmit á HM handbolta. Hann segir að búið sé að reyna að bregðast við.

Leikmaður danska landsliðsins í einangrun

Simon Pytlick, leikmaður danska karlalandsliðsins í handbolta, hefur verið einangraður frá leikmannahópi liðsins vegna Covid-smits. Danir segja þetta varúðarráðstöfun vegna strangra reglna í kringum komandi heimsmeistaramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×