Kjarninn sagði fyrst frá því að ráðuneytið hefði skotið málinu til Landsréttar og vísaði til skriflegs svars þess við fyrirspurn miðilsins. Ráðuneytið telji dóm héraðsdóms ekki í samræmi við gögn málsins og almenna túlkun og framkvæmd á lögum um útlendinga.
Hussein var meðal fimmán hælisleitenda sem vísað var úr landi snemma í nóvember og flogið til Grikklands með valdi. Hussein notar hjólastól og gagnrýndu ýmis samtök hvernig staðið var að framkvæmdinni. Hann sneri aftur til Íslands rétt áður en Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi úrskurð kærunefndar útlendingamála um brottvísun hans og fjölskyldu hans í desember.
Albert Björn Lúðvígsson, einn lögmanna Husseins, segir í samtali við Vísi að þau hafi fyrst fengið að vita af því í morgun að það stæði til að áfrýja dómnum. Niðurstaða héraðsdóms sé í stíl við annan nýlegan dóm um svonefnda tólf mánaða reglu um að umsækjandi um alþjóðlega vernd fái efnismeðferð hafi mál hans verið lengur en tólf mánuði til umfjöllunar.
„Mér finnst mjög miður að þessu hafi verið áfrýjað,“ segir Albert.
Útlendingastofnun hefur nú umsókn Husseins og fjölskyldu um alþjóðlega vernd sem þau lögðu fram þegar þau komu aftur til landsins í desember til umfjöllunar. Albert segist búast við að þau verði boðuð í viðtöl vegna þess fljótlega. Ekki sé hægt að vísa fjölskyldunni úr landi á meðan umsóknirnar eru til umfjöllunar.
Fréttin hefur verið uppfærð.