Le Graët var gagnrýndur í vikunni fyrir að láta út úr sér að hann „myndi ekki einu sinni taka upp símann“ ef Zidane hefði samband vegna þjálfarastarfs franska landsliðsins. Í kjölfarið stigu nokkrar stórstjörnur úr knattspyrnuheiminum fram og sögðu sína skoðun á þessum ummælum Le Graët.
Le Graët hefur síðan þá beðist afsökunar á ummælum sínum og segir að þau hafi verið klaufaleg. Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina telur Patrick Anton, formaður siðanefndar franska knattspyrnusambandsins, að kominn sé tími á að forsetinn stígi til hliðar.
„Le Graët hefur látið ummæli falla sem sýna að hann er ekki jafn skýr í hausnum og hann var. Hann er maður sem er orðinn þreyttur og þarf að finna sér eitthvað annað að gera,“ sagði Anton um hinn 81 árs gamla Le Graët.
Eins og áður segir blönduðu nokkrar stórstjörnur úr knattspyrnuheiminum sér í málið. Kylian Mbappé, framherji PSG og franska landsliðsins og Hugo Lloris, fyrirliði Tottenham og franska landsliðsins, sögðu ummælin sýna virðingaleysi, ásamt því að spænska stórveldið Real Madrid gagnrýndi ummælin.