Maliar sagði harða bardaga enn standa yfir í Soledar en stjórnvöld í Kænugarði hafa neitað fregnum þess efnis að Rússar hafi umkringt og tekið borgina, líkt og Yevgeny Prigozhin, leiðtogi Wagner málaliðahópsins, hefur haldið fram.
Prigozhin fulllyrti í morgun að sveitir hans hefðu fundið líkamsleifar annars tveggja hjálparstarfsmanna frá Bretlandi sem hefur verið saknað. Hann nefndi ekki nafn mannsins en sagði menn sína hafa fundið skilríki beggja í fórum hans.
Maliar sagði Rússa sækja að Soledar, þar sem látnir hermenn þeirra lægju á víð og dreif. Rússnesk stjórnvöld hefðu leitt þúsundir eigin ríkisborgara til slátrunar en Úkraínumenn stæðu enn vörðinn.
Bretar segja upplýsingar sínar benda til þess að enn sé barist umhverfis borgina, í Donetsk, og á vegum sem liggja að Kramatorsk, í Luhansk. Úkraínumenn segjast hafa fellt fleiri en 100 rússneska hermenn í einni árás í Soledar en þetta hefur ekki verið staðfest.
Robert Habeck, varakanslari Þýskalands, sagði í morgun að Þjóðverjar ættu ekki að standa í vegi annarra þjóða sem vildu veita Úkraínumönnum stuðning í formi vopna. Þetta sagði hann vegna ákvörðunar Pólverja um að senda þýska Leopard-skriðdreka til Úkraínu en gjöfin er háð samþykki Þjóðverja.