Við erum stödd í eldhúsinu í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað þar sem Dagrún Drótt Valgarðsdóttir er mætt með jurtirnar sínar og nýju gosdrykkina sína. Fyrirtæki hennar heitir Könglar og er sprotafyrirtæki í Fljótsdal, sem hefur náð góðum árangri á stuttum tíma en drykkirnir komu fyrst á markað síðasta sumar.
„Þetta verkefni byrjaði hér í Hallormsstaðaskóla en mér fannst bara jurtir ekki nógu mikið nýttar á Íslandi. Ég er bara að reyna að hvetja fólk og sýna að það er hægt að nota þær í ýmsar afurðir. Við erum komin með í framleiðslu Fíflaísté, Skessujurta gos og Rabarbara gos en við erum að þróa ýmislegt og nýta eins og Einiberin meira og Vallhumal og Reyniberin, sem eru eiginlega ekkert nýtt á Íslandi,” segir Dagný Drótt.
Dagný Drótt segir verkefnið mjög spennandi og að það hafi komið henni skemmtilega á óvart hvað Íslendingar og erlendir ferðamenn eru tilbúnir að prófa nýju drykkina.
Það er hún líka mjög ánægð með hvað landeigendur í Fljótsdal hafa verið jákvæðir að leyfa tínslu á allskonar villijurtum í landi þeirra.
Dagrún Drótt segir aðstoða Hússtjórnarskólans líka ómetanlega.
„Þau eru til í svona vitleysisgang eins og þennan, sem er bara nauðsynlegt í lífinu,” segir hún og hlær.

Og skólameistarinn er alsæll með nýju drykkina og hvernig það er verið að nota villijurtirnar í þá.
„Þetta eru mjög góðir drykkir, enda væri lagerinn ekki uppseldur nema að þetta væru góðir drykkir,” segir Bryndís Fiona Ford, skólameistari.