Handbolti

Búið spil með tapi eða bjart útlit með aðstoð Portúgals?

Sindri Sverrisson skrifar
Það er nóg eftir af HM og Ýmir Örn Gíslason og félagar ætla að svara fyrir sig eftir tapið svekkjandi gegn Ungverjum.
Það er nóg eftir af HM og Ýmir Örn Gíslason og félagar ætla að svara fyrir sig eftir tapið svekkjandi gegn Ungverjum. VÍSIR/VILHELM

Ef að úrslitin verða Íslandi í hag í lokaumferð D-riðils í dag á HM karla í handbolta mun Ísland enda í efsta sæti riðilsins, þrátt fyrir hið svekkjandi tap gegn Ungverjum á laugardag.

Ísland mætir Suður-Kóreu klukkan 17 og má ekki við því að tapa því þá gæti liðið endað í neðsta sæti riðilsins og þurft að fara í Forsetabikarinn.

Jafntefli eða sigur kæmi hins vegar Íslandi áfram í milliriðil ásamt Ungverjum og Portúgölum, með stigin tvö í farteskinu sem liðið fékk með sigrinum gegn Portúgal í síðustu viku. 

Og í milliriðlinum tæki við barátta um tvö laus sæti í 8-liða úrslitunum, þangað sem Ísland ætlar sér enda möguleiki á bæði verðlaunum og sæti á Ólympíuleikunum í París í húfi.

Sigur Portúgals gæti komið Íslandi á toppinn

Í þeirri baráttu gæti seinni leikur dagsins einnig skipt miklu máli fyrir Íslendinga en þá mætast Portúgal og Ungverjaland.

Ef Portúgal vinnur Ungverja og Ísland vinnur Suður-Kóreu, enda Ísland, Ungverjaland og Portúgal með 4 stig hvert í riðlinum og taka 2 stig hvert áfram með sér í milliriðilinn.

Innbyrðis markatala úr leikjunum þremur á milli Íslands, Ungverjalands og Portúgals myndi þá ráða stöðu þeirra. Ísland vann Portúgal 30-26 en tapaði 30-28 fyrir Ungverjalandi.

Ísland yrði því efst í þessum hópi ef sigur Portúgals í kvöld yrði með að hámarki fimm marka mun (eða sex marka ef Portúgal skoraði ekki fleiri en 31 mark). Það gæti reynst dýrmætt í milliriðlinum, til að mynda ef liðin þrjú myndu öll tapa fyrir Svíþjóð en vinna Brasilíu og Grænhöfðaeyjar.

Brasilía, Grænhöfðaeyjar og Svíþjóð bíða

Komist Ísland í milliriðil er nefnilega nú þegar ljóst að þar bíða Brasilía, Grænhöfðaeyjar og Svíþjóð. Leikið verður í milliriðlinum á miðvikudag, föstudag og sunnudag, en það skýrist eftir leiki dagsins hvaða daga og klukkan hvað liðin mætast.

Svíar hafa unnið afar örugga sigra gegn Brasilíu og Grænhöfðaeyjum og koma því í milliriðilinn með fjögur stig. Brasilía og Grænhöfðaeyjar mætast í dag og sigurliðið tekur með sér tvö stig, í baráttuna við liðin úr riðli Íslands.


Tengdar fréttir

„Þetta var bara slys“

„Þetta var löng nótt og ég held ég hafi litið síðast á klukkuna 4:50,“ segir Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins, fyrir æfingu liðsins í Kristianstad í gær. Ísland mætir Suður-Kóreu klukkan 17:00 í lokaleik liðsins í riðlinum.

„Mikið eftir af þessu móti“

„Mér hefur ekki oft liðið eins illa og eftir þetta tap,“ sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari degi eftir martröðina gegn Ungverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×