Erlent

Deilt í Disney

Samúel Karl Ólason skrifar
Bob Iger tók nýverið aftur við stjórnartaumunum á Twitter en nýr fjárfestir í Disney er andstæðingur hans.
Bob Iger tók nýverið aftur við stjórnartaumunum á Twitter en nýr fjárfestir í Disney er andstæðingur hans. Getty/Kevin Dietsh

Forsvarsmenn Disney sögðu í dag að það hafði verið rétt af þeim að neita fjárfestinum Nelson Peltz um sæti í stjórn félagsins. Hann hefði ekki reynslu til að hjálpa Disney og að hann skorti skilning á starfsemi félagsins. Peltz segist vilja bjarga Disney frá því sem hann kallar „krísu“.

Peltz hefur fjárfest töluvert í Disney í gegnum sjóð sinn Trian Fund Management LP og hefur viljað sæti í stjórn félagsins. Hann hefur sagt Disney í krísu og að allt of mikið hafi verið fjárfest í streymisveitunni Disney Plus og í kaupin á 21th Century Fox.

Fjárfestirinn reyndi í síðustu viku að fá sæti í stjórn Disney en því var hafnað, samkvæmt frétt Reuters.

„Nelson Peltz skilur ekki rekstur Disney og skortir hæfileika og reynslu til að aðstoða stjórnina í að auka arð hlutafjáreigenda í sífellt breyttu fjölmiðlaumhverfi,“ segir stjórnin í fjárfestakynningu sem birt var í dag, samkvæmt frétt Reuters.

Peltz var mjög andvígur því að þegar Bob Iger, forstjóri Disney, sneri nýverið aftur til að leiða fyrirtækið. Tæpt ár var síðan Bob Chapek tók við af Iger.

Sjá einnig: Önnur Bob-skipti hjá Disney

Reuters segir að búist sé við því að Iger muni einblína á Disney Plus sem hann hjálpaði við að setja á laggirnar og hefur kostað Disney mikla peninga. Chapek hefur ítrekað haldið því fram að streymisveitan yrði arðbær fyrir september 2024. Nokkrar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi streymisveita þar sem áherslan er ekki lengur á að fjölga notendum sama hvað, heldur reka þær með hagnaði.

Stjórnin segir einnig að kaup Disney á öðrum fyrirtækjum að undanförnu, eins og Marvel og Lucasfilm, hafi aukið verðmæti Disney og hafi haft mikil og jákvæð áhrif á félagið. Í öllum tilfellum hafi verið talað um að Disney hafi borgað of mikið fyrir fyrirtækin en það hafi reynst rangt.

Í áðurnefndri kynningu er verðmæti Disney borið saman við S&P 500 vísitöluna en sá samanburður sýnir að Disney hefur staðið betur en önnur fyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×