Handbolti

„Er bara eitt stórt spurningamerki“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aron Pálmarsson verður ekki með íslenska liðinu í leiknum á morgun.
Aron Pálmarsson verður ekki með íslenska liðinu í leiknum á morgun. vísir/vilhelm

„Það var ömurleg tilfinning að sitja upp í stúku og horfa á leikinn. Það er ekkert verra að vera ekki í handboltaskónum og búningnum og geta ekki hjálpað liðinu,“ segir Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í viðtali við Vísi og Stöð 2 á hóteli landsliðsins í Gautaborg í dag.

Hann segist hafa haldið í vonina um að spila leikinn lengi vel í gær en Aron gat ekki tekið þátt í leiknum gegn Svíum í milliriðli í gærkvöldi. Leikurinn tapaðist 35-30 og vonir Íslands um að komast í 8-liða úrslitin í raun engar eftir úrslitin.

„Við testuðum þetta á leikdegi í hádeginu og það bara gekk ekki. Ég hreinlega veit ekki hvað gerðist. Þetta gerist í raun eftir tíu mínútur í leiknum gegn Grænhöfðaeyjum og ég fæ bara einhvern smá straum í kálfann. Ég var ekkert að taka af stað eða finta eða ekki neitt. Ég er bara eitt stórt spurningamerki því maður er búinn að gera allt síðustu mánuði til þess að vera klár því þetta er búið að vera vesen á mér þessi kálfi. Ég er í raun svolítið blankó því bæði test og ég veit ekki hvað og hvað hafa komið hrikalega vel út en svo gerist þetta bara upp úr þurru,“ segir fyrirliðinn.

Aron segir að andinn í liðinu eftir gærkvöldið sé ekkert svo góður.

„Það var allt vel þungt í gær morgunmaturinn þungur. Við þurfum að koma því í hausinn á okkur að þessi leikur á morgun skiptir máli varðandi framhaldið. Eðlilega erum við bara skítfúlir því við höfðum mikla trú á okkur og okkur líður eins og við höfum brugðist okkur sjálfum,“ segir Aron sem verður ekki með gegn Brasilíu í leiknum á morgun.

Klippa: Er bara eitt stórt spurningamerki



Fleiri fréttir

Sjá meira


×