Fyrir leik dagsins gegn Brasilíu var ljóst að Ísland ætti ekki möguleika á að komast í 8-liða úrslit mótsins. Það leit lengi vel út fyrir að strákarnir væru með hugann við það en frammistaðan í fyrri hálfleik var ekki upp á marga fiska. Í þeim síðari reif Ísland sig upp og vann á endanum fjögurra marka sigur.
„Við erum hundfúlir að fara ekki lengra og hrikalega svekktir að geta ekki gefið fólkinu okkar það en þau gáfu allt í þetta. Frábært að hafa þau hérna. Við töluðum um það að reyna fá stúkuna með, það kannski helst í hendur. Geggjað að klára þetta.“
Um mótið í heild sinni og hversu mikil vonbrigði það eru að komast ekki áfram:
„Ég held að það viti það allir. Við leikmenn vitum alveg hvernig staðan á liðinu er og hversu góðir við erum. Við erum hundfúlir. Maður er búinn að taka út mesta svekkelsið því við vissum að við værum ekki að fara áfram. Fínt að enda þetta á sigri.“
„Langar ekki að segja það. Þetta mót fer á þessu korteri á móti Ungverjum þó við höfum ekki vitað þá að við værum út en ég vil ekki skella skuldunni á það (væntingar þjóðarinnar). Ef að svo er þá þurfum við bara að læra að umgangast það. Við eigum að geta gert það. Það eru allir atvinnumenn í þessu liði, spila í stórum liðum og vanir pressu og væntingum. Það á ekki að vera neitt nýtt,“ sagði Bjarki Már að lokum.