Þetta kemur fram í tölvupósti sem sendur var á forráðamenn barna við skólann, fréttastofa hefur póstinn undir höndum.
Mygla greindist fyrst í Flataskóla úr sýnum sem tekin voru í október síðastliðnum. Í kjölfarið var farið í heildarúttekt innan skólans. Í tölvupóstinum segir að áhersla hafi verið lögð á að grípa skjótt til aðgerða og að Garðabær vinni náið með verkfræðistofunni Mannvit, sem heldur utan um sýnatökur og aðgerðir.
„Mannvit upplýsti í dag, 23. janúar, um fyrstu niðurstöður úr sýnatökum sem fram fóru í desember og janúar en þær benda til þess að loka þurfi nokkrum rýmum til viðbótar í skólanum. Um er að ræða matsal og leikskóladeild skólans en einnig tvær kennslustofur 7. bekkja, eina stofu 3. bekkja, eina stofu 6. bekkja og sérkennslurými,“ segir í tilkynningunni.
Til þess að geta brugðist við breyttum aðstæðum muni nemendur í þriðja bekk og sjöunda bekk þurfa að vera heima næstu tvo daga. Starfsemi leikskólans muni einnig liggja niðri næstu tvo daga.
Mötuneytinu skellt í lás
Þá segir að þeir nemendur sem munu geta mætt í skólann á morgun, þriðjudag, muni þurfa að taka með sér nesti í skólann vegna lokunar mötuneytisins. Frá og með miðvikudegi muni Matartíminn, sem rekur mötuneyti skólans, sjá nemendum í mataráskrift fyrir nesti.
Þá segir að á næstu tveimur dögum muni starfsmenn skólans vinna að endurskipulagningu fyrir þá árganga sem um ræðir og forráðamenn verði áfram upplýstir um stöðu mála.
Frekari niðurstaða sýnataka sé enn beðið og að Mannvit hafi ráðlagt Garðabæ að grípa til framangreindra ráðstafana í samræmi við verklag bæjarins.
Óvissa með framhaldið
Í tölvupóstinum segir að næstu skref verklagsins séu að loka umræddum rýmum með loftþéttri lokun á meðan viðgerðir á þeim standa yfir.
Beðið sé eftir endanlegum niðurstöðum sýnatöku og þá verði hægt að leggja heildarmat á ástand skólans og í kjölfarið ráðast í endurbætur þar sem þörf er á. Komi til þess verði afmörkuðum svæðum lokað með loftþéttri lokun á meðan viðgerðir standa yfir.
Víðtækar hreingerningar verði framkvæmdar strax eftir lagfæringar ásamt hreinsun loftræstikerfis og að lokum muni Mannvit sjá um eftirfylgni en sýnataka fari aftur fram tveimur til þremur mánuðum eftir að viðgerðum er lokið.