Fótbolti

Verðlauna bandaríska blaðamanninn sem dó á HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grant Wahl að störfum á leik Bandaríkjanna og Wales á HM í Katar. Aðeins nokkrum dögum síðar var hann allur.
Grant Wahl að störfum á leik Bandaríkjanna og Wales á HM í Katar. Aðeins nokkrum dögum síðar var hann allur. Getty/Doug Zimmerman

Bandaríska knattspyrnusambandið mun veita Grant Wahl heitnum heiðursverðlaun sambandsins sem eru veitt fjölmiðlamönnum sem hafa unnið mikið starf við fréttaskrif um fótboltann í Bandaríkjunum.

Að auki mun vera tekið frá sæti fyrir Grant Wahl á öllum heimaleikjum bandarísku landsliðanna fram yfir næsta heimsmeistaramót karla sem fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó árið 2026. Sætið verður autt en í því verður treyja merkt Wahl sem og blóm til minningar um hann.

Hinn 49 ára gamli Wahl lést 10. desember eftir að hafa hnigið niður í blaðamannaaðstöðunni á leik Argentínu og Hollands í átta liða úrslitum keppninnar.

Wahl fær þessi verðlaun formlega 6. maí þegar nýir aðilar verða teknir inn í Heiðurshöllina í Frisco í Texaa fylki. Við sama tilefni verða þau Landon Donovan, DaMarcus Beasley, Lauren Cheney Holiday, Kate Sobrero Markgraf, Jill Ellis og Steve Zungul tekin inn í Heiðurshöll bandaríska fótboltans.

Wahl vann fyrir Sports Illustrated frá 1996 til 2021 þar sem hann fjallaði um fótbolta og bandarískan háskólakörfubolta. Hann stofnaði síðan sína eigin vefsíðu.

Wahl vann einnig fyrir sjónvarpsstöðvarnar Fox og CBS auk þess að hann skrifaði líka bækur um fótbolta eins og „The Beckham Experiment“ um komu David Beckham til LA Galaxy.

Krufning hjá réttarmeinafræðingi í New York leiddi í ljós að Wahl lést eftir að hafa fengið slagæðagúlp í ósæð sem liggur frá hjartanu en við það kom rifa á æðina sem dró hann til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×