Markvörðurinn Yann Sommer byrjaði sinn fyrsta leik í liði Bayern eftir að koma frá Borussia Mönchengladbach á dögunum. Sommer nældi sér í gult spjald um miðbik fyrri hálfleiks fyrir brot fyrir utan vítateig.
Það var svo á 34. mínútu sem heimamenn í Bayern komust yfir. Thomas Müller gaf þá á Leroy Sané sem skilaði boltanum í netið, staðan 1-0 í hálfleik. Heimamenn leiddu allt þangað til á 69. mínútu leiksins þegar franski sóknarmaðurinn Randal Kolo Muani jafnaði metin með góðu skoti, óverjandi fyrir Sommer.
Hvorugu liðinu tókst að tryggja sér sigurinn og lauk leiknum því með 1-1 jafntefli. Bayern er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 37 stig – stigi meira en Union Berlín í 2. sætinu - að loknum 18 leikjum. Frankfurt er í 5. sæti með 32 stig.