Íslenski boltinn

Kristjana aftur til Eyja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristjana þekkir treyju ÍBV ágætlega.
Kristjana þekkir treyju ÍBV ágætlega. Stöð 2 Sport

Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz hefur samið við ÍBV um að leika með liðinu í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í sumar. Hún þekkir vel til í Vestmannaeyjum eftir að hafa leikið með liðinu 2020 og 2021.

ÍBV greindi frá vistaskiptunum í dag. Í frétt félagsins segir:

Samtals á Kristjana vel á annað hundrað leiki skráða hjá KSÍ en það má því segja að hún sé orðin mjög reynslumikill leikmaður þrátt fyrir ungan aldur. Á síðustu leiktíð lék hún 13 leiki fyrir Breiðablik í deild og bikar.
Kristjana mun passa mjög vel inn í leikmannahóp ÍBV sem hefur leik í Lengjubikarnum í febrúar og leikur ÍBV nú 13. leiktíðina í röð í efstu deild, en Besta deildin hefst í apríl.

Kristjana, sem verður 21 árs gömul á árinu, kemur til ÍBV frá Breiðabliki. Áður hafði hún verið lánuð til Eyja en nú skiptir hún alfarið yfir. Kristjana hefur leikið 31 deildarleik fyrir ÍBV og stefnir á að bæta við þá tölu í sumar. Þá hefur hún spilað alls 15 leiki fyrir U-19, U-17 og U-16 ára landslið Íslands. 

ÍBV mætir Selfossi í 1. umferð Bestu deild kvenna þann 26. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×