Í nóvember á síðasta ári var karlmaður dæmdur til tveggja ára óskilorðsbundinnar refsingar fyrir gróft ofbeldi gagnvart fjórum dætrum sínum og fyrrverandi eiginkonu. Eiginkonan fyrrverandi og móðir dætranna var dæmd til sex mánaða skilorðsbundinnar refsingar fyrir ofbeldi gagnvart þremur dætranna af fjórum. Var hún sakfelld fyrir að hafa ítrekað slegið elstu þrjár dætur sínar.
Í héraðsdómi var þó litið til þess við ákvörðun refsingar móðurinnar að hún hafi sjálf verið þolandi viðvarandi heimilisofbeldis mannsins. Því hlaut hún vægari sex mánaða dóm en fullnustu refsingar var frestað.
Konan óskaði eftir því að fá að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar á þeim grundvelli að hún hafi verið ranglega sakfelld í héraðsdómi. Þá hafi sú sakfelling verið staðfest í Landsrétti á grundvelli takmarkaðra sönnunargagna. Ákæruvaldið lagðist gegn beiðni móðurinnar.
Í niðurstöðu Hæstaréttar um hvort veita ætti áfrýjunarheimild eða ekki segir meðal annars að ekki verði séð af gögnum málsins að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar. Þá byggi niðurstaða Landsréttar um sakfellingu að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar. Það mat verði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti.
Taldi Hæstiréttur ljóst að áfrýjun til réttarins myndi ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.