Innlent

„Hleyptu mér út hérna, annars ber ég þig“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Strætóleiðin frá Selfossi til Reykjavíkur endar í Mjóddinni.
Strætóleiðin frá Selfossi til Reykjavíkur endar í Mjóddinni. Vísir/Vilhelm

Strætóbílstjóra á leið frá Selfossi til Reykjavíkur var hótað barsmíðum af farþega sem vildi komast út á miðri Breiðholtsbraut. Framkvæmdastjóri Strætó segir það reglulega koma fyrir að farþegar angri bílstjóra með einum eða öðrum hætti. 

„Ég var að taka strætó til Reykjavíkur frá Selfossi og þessi maður kom inn í Hveragerði. Hann talaði svolítið hátt í símann á leiðinni og það var alveg ljóst að hann var mjög drukkinn,“ segir Jón Hafdal í samtali við Vísi, en hann var á meðal farþega á strætóleið 51 frá Selfossi til Reykjavíkur í gær. 

„Síðan þegar við vorum komin í bæinn þá vildi hann láta hleypa sér út á miðri Breiðholtsbrautinni, þar sem var engin gangstétt eða neitt.“

Jón segir að bílstjórinn hafi tjáð manninum að það gæti hann ekki gert, þar sem það væri andstætt reglum. Þá hafi maðurinn reiðst og sagt: „Hleyptu mér út hérna, annars ber ég þig.“

Jón bætir við að bílstjóranum hafi bersýnilega verið brugðið við þessa hótun mannsins, sem hafi haldið áfram að ausa fúkyrðum yfir bílstjórann þar til honum var að endingu hleypt út úr strætisvagninum á miðri Breiðholtsbrautinni.

Bílstjórar reglulega angraðir

Í samtali við fréttastofu staðfesti Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó að stjórnstöð Strætó hafi borist tilkynning um að í vagninum hafi verið maður sem hefði viljað komast út á Breiðholtsbraut og að orðið hafi verið við því.  Hann gat ekki sagt nánar til um atvik málsins þar sem hann hefði ekki rætt við bílstjóra vagnsins.

„Samkvæmt stjórnstöð var það kallað inn að það hefði verið farþegi með læti sem vildi komast út á Breiðholtsbrautinni, sem hann fékk,“ segir Jóhannes.

Hann segir nokkuð algengt að bílstjórar þurfi að eiga við drukkna og dónalega farþega. 

„Það gerist reglulega í Strætó, að einhver sé að angra bílstjórana.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×