Nýafstaðið heimsmeistaramót í handbolta hefur greinilega vakið gríðarlegan áhuga fólks á íþróttinni, en áður en heimsmeistaramótið hófst höfðu aðeins selst um 18 þúsund miðar á fyrsta leik næsta Evrópumóts. Á lokadegi heimsmeistaramótsins tilkynnti Mark Schober, formaður þýska handknattleikssambandsins, að búið væri að selja 40 þúsund miða á leikinn.
Áhorfendametið á handboltaleik er í dag 44.189 áhorfendur, en það var sett árið 2014 á leik Rhein-Neckar Löwen og HSV Hamburg. Sá leikur fór fram á fótboltavellinum í Frankfurt, Deutsche Bank Arena. Opnunarleikur EM í handbolta á næsta ári mun hins vegar fara fram á fótboltavellinum Merkur Spiel-Arena í Düsseldorf, en sá völlur tekur 50 þúsund manns í sæti.
Það stefnir því allt í að áhorfendametið verði slegið þegar Evrópumótið í handbolta hefst í janúar á næsta ári. Eins og staðan er núna verða ekki seldir fleiri miðar í bili þar sem þeir miðar sem eftir eru eru eyrnamerktir stuðningsmönnum þjóðanna sem munu spila leikinn. Vitað er að Þjóðverjar munu spila þennan leik, en enn á eftir að koma í ljós hverjir verða andstæðingar þeirra.