Fótbolti

Hammarby með Hólmbert efstan á innkaupalista

Sindri Sverrisson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson í landsleik gegn Liechtenstein vorið 2021. Hann hefur spilað sex A-landsleiki.
Hólmbert Aron Friðjónsson í landsleik gegn Liechtenstein vorið 2021. Hann hefur spilað sex A-landsleiki. Getty

Sænska knattspyrnufélagið Hammarby hefur í hyggju að fá til sín framherjann Hólmbert Aron Friðjónsson sem er samningsbundinn þýska 2. deildarfélaginu Holstein Kiel.

Aftonbladet greinir frá þessu í dag og segir að Hammarby hafi þegar hafið viðræður um að fá Hólmbert til sín fyrir komandi tímabil í sænsku úrvalsdeildinni.

Samkvæmt Aftonbladet er Hammarby með fleiri erlenda framherja í sigtinu en Hólmbert er efstur á lista og talinn fullkominn til að fylla í skarðið sem Veton Berisha skildi eftir þegar hann fór til Molde í Noregi.

Hólmbert var á síðasta ári lánaður til Lilleström í Noregi og skoraði fimm mörk í norsku úrvalsdeildinni auk þess að gefa þrjár stoðsendingar, þrátt fyrir að vera aðeins átta sinnum í byrjunarliði á leiktíðinni.

Hólmbert er samningsbundinn Holstein Kiel fram til sumarsins 2024 en hefur aðeins spilað fjóra deildarleiki fyrir liðið, alla sem varamaður, frá því að hann kom frá Brescia á Ítalíu sumarið 2021.

Hólmbert hefur einnig verið á mála hjá Aalesund í Noregi, Bröndby í Danmörku og Celtic í Skotlandi, en er uppalinn hjá HK og lék einnig með Fram, KR og Stjörnunni hér á landi.

Hólmbert, sem verður þrítugur í apríl, á að baki sex A-landsleiki og skoraði í þeim tvö mörk.

Fjöldi Íslendinga hefur spilað fyrir Hammarby og til að mynda var Pétur Marteinsson fyrirliði liðsins á sínum tíma. Jón Guðni Fjóluson er sem stendur eini Íslendingurinn sem er samningsbundinn félaginu en hann lék ekkert í fyrra og mun ekkert spila í ár, vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×