Samkvæmt embættismönnum í Úkraínu voru átta Kalibr-eldflaugar sem skotið var frá skipi Rússa í Svartahafi skotnar niður í morgun en aðrar náðu skotmörkum sínum í norður- og vesturhluta Úkraínu og í Dnipropetrovsk og Kirovograd.
Reuters greindi frá því í morgun að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna muni í næstu viku greiða atkvæði um ályktun sem kveður á um nauðsyn þess að aðilar komist að samkomulagi um varanlegan frið í Úkraínu. Atkvæðagreiðslan er sögð munu fara fram sama dag og ár er liðið frá innrás Rússa.
Í ályktuninni verður þess meðal annars krafist að hersveitir Rússlands hverfi frá Úkraínu.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Wang Yi, æðsti sendifulltrúi Kína, funduðu í París í gær og ræddu meðal annars áhrif stríðsins á viðkvæm ríki, meðal annars með tilliti til fæðuöryggis. Báðir lýstu yfir sama markmiði um að stuðla að friði en ítarlegar útlistanir á aðgerðum fylgdu ekki.
Hugveitan Institute for the Study of War segir Rússa líklega hafa gengið verulega á mannskap og vopnabirgðir sínar. Sérfræðingar hugveitunnar segja þá illa undir það búna að viðhalda stórsókn í austurhluta Úkraínu og vænta ekki stórtíðinda í fyrirhuguðum ávörpum Vladimir Pútín Rússlandsforseta í næstu viku.
Russia s costly military campaign in #Ukraine has likely significantly depleted #Russian equipment and manpower reserves necessary to sustain a successful large-scale offensive in eastern Ukraine.https://t.co/VGVhIP3NAd pic.twitter.com/SEFALNrWPw
— ISW (@TheStudyofWar) February 16, 2023