Fótbolti

Gladbach á­fram með tak á Þýska­land­smeisturum Bayern

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bayern getur einfaldlega ekki unnið Gladbach.
Bayern getur einfaldlega ekki unnið Gladbach. EPA-EFE/ULRICH HUFNAGEL

Borussia Mönchengladbach vann 3-2 sigur á Þýskalandsmeisturum Bayern München í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Bæjurum hefur ekki tekist að sigra Gladbach í síðustu fimm leikjum í deild eða bikar.

Leikurinn byrjaði ekki byrlega fyrir gestina frá Bæjaralandi en eftir aðeins átta mínútna leik fékk miðvörðurinn Dayot Upamecano að líta rauða spjaldið fyrir brot sem aftasti maður. Til að bæta gráu ofan á svart þá kom Lars Stindl heimaliðinu yfir aðeins fimm mínútum síðar.

Eric Maxim Choupo-Moting jafnaði hins vegar metin þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks og staðan 1-1 í hálfleik. Það tók heimaliðið þó ekki langan tíma að ná forystunni á nýjan leik í síðari hálfleik.

Jonas Hofmann, sem hafði lagt upp fyrsta mark Gladbach, kom boltanum í netið á 55. mínútu og varamaðurinn Marcus Thuram gulltryggði sigurinn með marki á 84. mínútu. Aftur var Hofmann með stoðsendinguna. 

Meistararnir náðu að minnka muninn í uppbótartíma þökk sé marki Mathys Tel eftir sendingu Alphonso Davies - sem lagði einnig upp fyrra markið - en nær komust þeir ekki og lokatölur 3-2 Gladbach í vil.

Staðan í deildinni þannig að Union Berín getur hirt toppsætið með sigri á Schalke 04 á morgun, sunnudag. Þá getur Borussia Dortmund jafnað Bayern að stigum með sigri á Herthu Berlín á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×